Gönguskíđaferđ nýliđa í Heilagsdal og Mývatnssveit

Gönguskíđaferđ nýliđa í Heilagsdal og Mývatnssveit Dagana 22. og 23. mars fór tólf manna hópur frá Súlum í gönguskíđaferđ frá Garđi í Mývatnssveit, í

Gönguskíđaferđ nýliđa í Heilagsdal og Mývatnssveit

Dagana 22. og 23. mars fór tólf manna hópur frá Súlum í gönguskíðaferð frá Garði í Mývatnssveit, í Heilagsdal og þaðan norður að Hverfjalli. Upphaflega planið var að ganga frá Svartárkoti í Bárðardal í Botna í Suðurárbotnum og þaðan í Heilagsdal og Mývatnssveit en sökum ófærðar þurfti að breyta öllum áætlunum.

Hópurinn mætti snemma morguns í Hjalteyrargötu 12 en á þeim tíma var ljóst að nokkurn tíma myndi taka að að moka Víkurskarð. Um níuleitið lagði hópurinn fullur bjartsýni af stað en sökum þess að mjög langan tíma tók að opna austur fyrir Víðkurskarð notaði hópurinn tímann vel og kláraði námskeiðið „Sérfræðingur í bið“ sem skipulagt er af Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Skíðagangan hófst um miðjan dag við Garð í Mývatnssveit og var skíðað í fínum snjó austur að mynni Heilagsdals þar sem við tóku harðar og vindbarnar brekkur upp í dalinn. Ferðin inn dalinn gekk vel og síðustu tvo tímana var gengið í heiðskíru og fínu veðri undir stjörnubjörtum himni. Um tíuleytið, eftir sjö tíma göngu var komið að skála Ferðafélags Húsavíkur og fyrsta verkefnið að moka vænum skafli frá dyrum svo allir kæmust inn. Útihús og kamar sem stendur rétt við skálann var alveg á kafi í snjó og einu ummerkin um að það væri annað hús á svæðinu voru að það glitti í suðurenda mænisins.

Nóttin var að mestu róleg en undir morgun var orðið frekar kalt í skálanum þar sem gluggar höfðu verið opnaðir kvöldið áður og norðanvindur sá um lofthreinsun og óumbeðna kælingu. Við þessar aðstæður er mjög algengt að skálagestir bíði eftir því að einhver annar bíti á jaxlinn og skríði úr svefnpokanum til að loka gluggunum en í þetta skiptið tók það mjög langan tíma, gluggunum var eiginlega ekki lokað fyrr en allir fóru á fætur.

Verkefni dagsins var 20 km ganga norður að Hverfjalli og er skemmst frá því að segja að ferðin gekk vel, líka niður Góðagil þó það væri mjög blindað og boðið var upp á nokkur mismunandi veðurafbrigði á leiðinni. Sunnanvindur í bakið norður Heilagsdal, skýjað og „whiteout“ í giljunum, skyggnið niður brekkurnar var þannig að það var ekki á hreinu hvort brekkan framundan hallaði upp eða niður. Svo var boðið upp á skafrenning og ofankomu við Lúdentaborgir en gangan endaði í blíðviðri vestan Hverfjalls þar sem bílar biðu eftir hópnum.

Eftir svona ferð lá beinast við að skella sér í Jarðböðin í Mývatnssveit og svo á Daddi‘s Pizza áður en ekið var heim á leið.


Svćđi