Síðasta laugardag kom útkall vegna slasaðs göngumanns í Djúpadal, Eyjafirði. Fóru félagar í Súlum ásamt félögum frá Dalbjörgu til aðstoðar. Hafði maðurinn fallið í brattlendi og hálku og slasast nokkuð. Vegna aðstæðna var þyrla Landhelgisgæslunnar fengin til að flytja sjúklinginn á spítala.
Í gær kom síðan útkall vegna vélsleðaslyss við Stórahnjúk í Hlíðarfjalli. Fóru félgar í Súlum ásamt félögum úr Dalbjörgu og frá Dalvík á staðinn á vélsleðum og með troðara frá skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli. Snjóbíll frá Súlum var einnig með í för en komst ekki á slysstað vegna bilunar. Þegar ljóst varð að erfitt yrði að flytja sjúklinginn til byggða með góðu móti var tjaldað yfir hann og þyrla Landhelgisgæslunnar fengin til aðstoðar á ný. Samtals tóku 80 mannst úr þessum þremur sveitum þátt í þessum aðgerðum.