Reglugerð Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri

Reglugerð Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri

1.  Reglugerð um almennt starf sveitarinnar

1.1.Eftirfarandi reglur gilda um almennt starf Súlna og einstaka flokka innan sveitarinnar, eftir því sem við á. Með almennu starfi er átt við alla liði á starfsáætlun eða í dagskrá Súlna, útköll, fjáraflanir og aðra viðburði sem félagar sveitarinnar eru boðaðir til.

1.2. Hver flokkur skal kjósa sér formann og tvo meðstjórnendur til eins árs í senn. Kjöri skal vera lokið fyrir lok maí. Ef fullreynt þykir að ekki náist samstaða um formann og meðstjórnendur eða ef deilur rísa innan flokks um stjórnun hans getur stjórn skipað í stöðurnar að eigin frumkvæði. Fundarsköp aðalfunda flokka skulu taka mið af dagskrá í lögum um aðalfund sveitarinnar (9. gr.).

1.3. Stjórnir flokka sjá til þess að reglum viðkomandi flokks sé fullnægt. Þeir skulu einnig annast starfsemi flokksins og röðun á lista en þá ávallt leggja allar breytingar fyrir stjórn til upplýsingar. Stjórnir flokka skulu kappkosta að fylgjast með þjálfun og kunnáttu flokksfélaga og stuðla að nýliðun í flokknum. Stjórnir flokka bera einnig ábyrgð á störfum viðkomandi flokks og tilheyrandi búnaði gagnvart sveitinni og stjórn hennar. Stjórnir flokka koma með tillögu að endurmenntun félaga. Stjórnendur flokka eru ráðgefandi er varðar kaup, stærra viðhald og endurnýjun búnaðar- og farartækja síns flokks gagnvart stjórn.

1.4. Stjórn hvers flokks setur flokknum vinnureglur og uppfærir þær eftir þörfum. Í vinnureglum flokks skal fjallað um notkun tækja og búnaðar, hæfniviðmið og nýliðun. Reglurnar og breytingar skulu fá samþykki stjórnar. Þá getur flokkurinn sett sérstakar umgengnisreglur um ákveðinn búnað og tæki, en þær reglur þurfa ekki samþykki stjórnar.

1.5. Sá sem ábyrgur er fyrir viðkomandi starfslið samkvæmt starfsáætlun skipar stjórnanda (fararstjóra).

1.6. Stjórnandi/fararstjóri skal:

1.6.1. Kanna þátttöku fyrir fram og auglýsa ferð að jafnaði með a.m.k. sólarhrings fyrirvara.

1.6.2. Hafa samráð við forsvarmenn tækjaflokka um farartæki.

1.6.3. Útvega húsnæði ef þörf er á.

1.6.4. Skilja eftir lista yfir þátttakendur og ferðaáætlun.

1.6.5. Sjá til þess að haldið sé utan um þann búnað sem farið er með og að hann skili sér allur til baka.

1.7. Fullgildir félagar geta sótt um styrki úr sveitarsjóði til að sækja námskeið eða fara í þjálfunarferðir. Umsækjendur skulu gera grein fyrir tilgangi og markmiðum ferðarinnar/námskeiðs og skila inn kostnaðaráætlun. Við mat á umsóknum skal stjórn hafa til hliðsjónar gagnsemi umræddrar ferðar/námskeiðs fyrir sveitina og störf umsækjenda í hennar þágu.

1.8. Í útköllum og starfi á vegum sveitarinnar skulu félagar að jafnaði bera einkennisfatnað Slysavarnafélagsins Landsbjargar, merktum sveitinni.

1.9. Ef farið er með bíla, tæki eða búnað sveitarinnar úr húsnæði eða farið er í ferð á vegum sveitarinnar skal skilja eftir tilkynningu þess efnis auk áætlaðs komu- /skilatíma.

1.10. Búnaður og tæki sveitarinnar eru að jafnaði ekki til einkanota. Persónulegur búnaður skal ekki vera geymdur í bílum og tækjum þegar þau eru ekki í notkun.

2. Reglugerð um sveitarráð

2.1. Sveitarráð skal starfa innan Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri og er samráðsvettvangur allra flokka.

2.2. Sveitarráð skal funda a.m.k. fjórum sinnum á ári.

2.3. Í sveitarráði eiga sæti formenn allra flokka eða aðrir forsvarsmenn í þeirra fjarveru, fulltrúar úr stjórn og fulltrúar nýliðaþjálfara. Fulltrúi stjórnar er formaður sveitarráðs og skal hann boða fundi ráðsins og stjórna þeim. Sveitarráð er ráðgefandi fyrir stjórn um allt sem viðkemur innra starfi sveitarinnar og flokkanna. Fulltrúar flokka skulu reglulega skýra frá starfi og áætlunum síns flokks. Sveitarráð skiptir með sér verkum og ber ábyrgð á framkvæmd starfsáætlunar sveitarinnar.

2.4. Drög að starfsáætlun Súlna fyrir 12 mánaða tímabil skulu liggja fyrir í lok maí ár hvert. Endanleg starfsáætlun fram að áramótum skal svo liggja fyrir á fyrsta sveitarfundi í september ár hvert. Starfsáætlun fram á vor skal liggja fyrir á fyrsta sveitarfundi nýs árs. Starfsárið telst frá september. Bæði drög og endanlega starfsáætlun skal leggja fyrir stjórn til samþykktar.

2.5. Sveitarráði ber að fylgja starfsáætlun eftir með því að fylgja því eftir að forsvarsmenn námskeiða og ferð hafi útvegað leiðbeinendur og fararstjóra, nauðsynlegar gistingar og námskeiðs sali o.s.frv.

2.6. Leitast skal við að fá fararstjóra til að taka að sér ferðir með góðum fyrirvara og hvetja til þess að ferðir séu vel auglýstar.

2.7. Fulltrúi sveitarráðs kynnir starfsáætlun komandi mánaða á hverjum sveitarfundi og skal þá liggja fyrir hverjir eru ábyrgir fyrir hverjum lið á dagskrá. Leitast skal við að fá viðkomandi til að kynna dagskrárliði á fundinum.

2.8. Sveitarráði ber að sjá til þess að haldin sé útkallsæfing fyrir alla sveitina á hverju starfsári.

2.9. Sveitarráð skal fylgjast með námskeiðsframboði hjá Björgunarskólanum og víðar og leitast við að hvetja félaga sveitarinnar til þátttöku í þeim námskeiðum sem þurfa þykir og áhugaverð þykja hverju sinni.

3. Reglugerð um bílaflokk

3.1. Bílaflokkur skal starfa innan Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri.

3.2. Bílaflokkur hefur umsjón með bílum og snjóbílum sveitarinnar og þeim búnaði sem þeim fylgir.

3.3. Formaður bílaflokks leggur fram ökumannslista í upphafi starfsárs þar sem fram kemur hverjir eru ökumenn/umsjónarmenn hvers bíls.

3.4. Umsjónarmaður bíls skal sjá til þess að hann sé ávallt útkallsfær. Formaður bílaflokks fylgir því eftir.

3.5. Bílaflokkur skal sjá um að gengið sé vel um bíla, búnað og aðstöðu flokksins.

3.6. Alla vinnu og akstur á að færa í þar til gert form. Þá skal flokkurinn halda skrá yfir tæki og búnað í sinni umsjá.

3.7. Umsjónarmenn og ökumenn sjá til þess að tiltækur sé ítarlegur listi yfir þann búnað sem er í hverjum bíl.

3.8. Hafa skal samráð við umsjónarmenn bíla ef óskað er eftir bílum til notkunar, náist ekki í umsjónarmann skal hafa samband við formann bílaflokks.

3.9. Miða skal við að hver maður aki ekki lengur en 6 klst. samfellt, án þess að til komi skipting á akstri og ekki lengur en 12 klst. á sólarhring. Formaður bílaflokks eða stjórnandi sjá um skiptingu á akstri. Bílstjórar skulu forðast að vera við vöku nóttina fyrir akstur.

3.10. Félagar í bílaflokki skulu viðhalda kunnáttu sinni á tækjum og búnaði flokksins með reglulegum æfingum og námskeiðum.

 4. Reglugerð um tækjaflokk

4.1. Tækjaflokkur skal starfa innan Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri

4.2. Tækjaflokkur hefur umsjón með torfærutækjum sveitarinnar, þ.e. vélsleðum, fjór- og sexhjólum, buggy-bílum o.þ.h. Einnig kerrum og þeim búnaði sem tækjunum fylgja.

4.3. Forsvarsmenn tækjaflokks leggja fram ökumannslista í upphafi starfsárs þar sem fram kemur hverjir eru ökumenn/umsjónarmenn hvers tækis.

4.4. Umsjónarmaður tækis sér til þess að það sé ávallt úkallsfært. Formaður tækjaflokks fylgir því eftir.

4.5. Tækjaflokkur sér um að vel sé gengið um tæki, búnað og aðstöðu flokksins.

4.6. Alla vinnu og akstur á að færa í þar til gert form. Þá skal flokkurinn halda skrá yfir tæki og búnað í sinni umsjá.

4.7. Tækjaflokkur skal sjá til þess að tiltækur sé listi yfir þann búnað sem í hverju tæki er.

4.8. Hafa skal samráð við forsvarsmenn tækjaflokks ef óskað er eftir tækjum flokksins til notkunar.

4.9. Þeir sem aka torfærutækjum sveitarinnar skulu nota þann öryggisbúnað sem við á hverju sinni.

4.10. Félagar í tækjaflokki skulu viðhalda kunnáttu sinni á tækjum og búnaði flokksins með reglulegum æfingum og námskeiðum.

5. Reglugerð um bátaflokk

5.1. Bátaflokkur skal starfa innan Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri.

5.2. Bátaflokkur hefur umsjón með bátum sveitarinnar og þeim áhöldum, búnaði og tækjum sem þeim fylgja.

5.3. Forsvarsmenn bátaflokks leggja fram áhafnarlista í upphafi starfsárs.

5.4. Forsvarsmenn bátaflokks bera ábyrgð á að bátar og annar búnaður flokksins séu ávallt útkallsfær.

5.5. Bátaflokkur sér um að gengið sé vel um báta, búnað og aðstöðu flokksins.

5.6. Alla vinnu og notkun báts á að færa í þar til gert form. Þá skal flokkurinn halda skrá yfir tæki og búnað í sinni umsjón.

5.7. Bátaflokkur sér til þess að tiltækur sé ítarlegur listi yfir þann búnað sem tilheyrir hverjum bát.

5.8. Hafa skal samráð við forsvarsmenn bátaflokks ef óskað er eftir bát/bátum til notkunar.

5.9. Bátaáhafnir skulu nota viðeigandi öryggisbúnað.

5.10. Félagar í bátaflokki skulu viðhalda kunnáttu sinni á tækjum og búnaði flokksins með reglulegum æfingum og námskeiðum.

6. Reglugerð um útilífsflokk

6.1. Útilífsflokkur skal starfa innan Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri.

6.2. Formaður útilífsflokks er einnig í forsvari fyrir undanfarahóp, en þarf þó ekki að vera starfandi undanfari.

6.3. Útilífsflokkur hefur umsjón með fjallabjörgunar-, straumvatnsbjörgunar- og klifurbúnaði sveitarinnar og ber ábyrgð á því að hann sé ávallt til reiðu.

6.4. Útilífsflokkur sér um að vel sé gengið um búnað og aðstöðu flokksins.

6.5. Útilífsflokkur skal halda skrá um búnað í umsjón flokksins og notkun hans.

6.6. Félagar í útilífsflokk skulu viðhalda kunnáttu sinni í fjallamennsku og fjallabjörgun með reglulegum ferðum, æfingum og námskeiðum.

Undanfarar:

6.7. Undanfarahópur heyrir undir útilífsflokk.

6.8. Allir undanfarar Súlna skulu fullnægja kröfum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar um undanfara og samþykktir af stjórn.

6.9. Undanfarar skulu að öllu jöfnu vera stjórnunarlega sjálfstæð eining við undirbúning aðgerða eftir boðun.

6.10. Allir undanfarar skulu hafa skáp í húsnæði sveitarinnar þar sem þeir geta geymt allan sinn búnað.

6.11. Verðandi undanfarar skulu starfa með undanförum á æfingum og mæta á fræðslukvöld auk þess að sækja þau námskeið sem formaður útilífsflokks telur nauðsynlegt áður en þeir sækja um að ganga í undanfarahópinn.

7. Reglugerð um fyrstuhjálparflokk

7.1. Fyrstuhjálparflokkur skal starfa innan Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri.

7.2. Fyrstuhjálparflokkur hefur umsjón með fyrstuhjálparbúnaði sveitarinnar og kemur með tillögur að kaupum á slíkum búnaði.

7.3. Fyrstuhjálparflokkur sér um að vel sé gengið um fyrstuhjálparbúnað og aðstöðu flokksins.

7.4. Fyrstuhjálparflokkur skal halda skrá um fyrstuhjálparbúnað sveitarinnar.

7.5. Fyrstuhjálparflokkur hefur yfirumsjón með fyrstuhjálparendurmenntun og -þjálfun fullgildra félaga. Endurmenntun skal að jafnaði fara fram tvisvar á ári.

7.6. Fyrstuhjálparflokkur útvegar búnað í einstaklingstöskur og í töskur tækja sveitarinnar, eftir beiðni umsjónarmanna tækja. Þá sér flokkurinn um að afhenda sjúkratöskur til nýrra félaga er vígjast inn í sveitina.

7.7. Fyrstuhjálparflokkur útnefnir tengilið sveitarinnar við fagfólk í áfallahjálp.

8. Reglugerð um bækistöðvarflokk

8.1. Bækistöðvarflokkur skal starfa innan Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri.

8.2. Bækistöðvarflokkur fer með innra skipulag sveitarinnar í útköllum í samráði við aðra flokka og hefur umsjón með fjarskiptabúnaði hennar.

8.3. Bækistöðvarflokkur viðheldur útkallslistum og félagaskrá sveitarinnar.

8.4. Bækistöðvarflokkur skal sjá til þess að fjarskiptabúnaður sé í lagi og tiltækur fyrir útköll. Forsvarsmenn flokksins fylgja því eftir.

8.5. Bækistöðvarflokkur skal sjá til þess að vel sé gengið um fjarskiptabúnað, aðstöðu flokksins og annan búnað sem flokkurinn ber ábyrgð á.

8.6. Bækistöðvarflokkur skal sjá til þess að til sé skrá yfir fjarskiptabúnað sveitarinnar.

8.7. Bækistöðvarflokkur sér um eftirfylgni og viðrun eftir útköll sveitarinnar.

8.8. Bækistöð hefur yfirumsjón með búnaði sem ekki fellur undir skilgreinda flokka sveitarinnar.

9. Reglugerð um leitarflokk

9.1. Leitarflokkur skal starfa innan Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri.

9.2. Leitarflokkur hefur umsjón með leitarbúnaði sveitarinnar, s.s. búnaði sem tengist dróna og leitarhundum, og ber ábyrgð á því að hann sé ávallt til reiðu.

9.3. Undir leitarflokk falla drónahópur og hundahópur og er formaður leitarflokks einnig í forsvari fyrir þá, en þarf þó ekki að vera starfandi í drónahóp eða hundahóp.

9.4. Leitarflokkur skal halda skrá um búnað í umsjón flokksins og notkun hans. Jafnframt skal færa alla vinnu og flug dróna í þar til gert form.

9.5. Stjórn leitarflokks skal halda skrá um alla fagmenntaða leitarmenn og þá sem hafa kennsluréttindi í leitartækni

9.6. Félagar leitarflokks skulu viðhalda þekkingu sinni á öllum þeim sviðum sem tengjast leitartækni með reglulegum æfingum og námskeiðum.

9.7. Stjórn leitarflokks skal leggja fram lista yfir sérhæft leitarfólk, flugmenn á dróna og útkallshæf hundateymi í upphafi starfsárs.

9.8. Hafa skal samráð við umsjónarmenn sé óskað eftir dróna eða leitarhundum.

10. Reglugerð um flugeldanefnd

10.1. Stjórn sveitarinnar tilnefnir a.m.k. fjóra í flugeldanefnd á fyrsta fundi sínum eftir aðalfund. Þar að auki situr gjaldkeri sveitarinnar í nefndinni.

10.2. Flugeldanefndin hefur umsjón með öllu er snýr að flugeldasölu, t.d. pöntun, sölustöðum, auglýsingum, móttöku, pökkun og frágangi eftir sölu.

11. Reglugerð um húsnefnd

11.1. Stjórn sveitarinnar tilnefnir a.m.k. þrjá félaga í húsnefnd á fyrsta fundi sínum eftir aðalfund.

11.2. Húsnefnd hefur umsjón með húsnæði sveitarinnar.

11.3. Húsnefnd gerir tillögur að endurbótum á húsnæði sveitarinnar, lóð og öðrum eignum sveitarinnar er tilheyra húsnæðinu.

11.4. Húsnefnd gerir kostnaðaráætlanir, aflar tilboða og gerir verklýsingar að þeim verkþáttum (sbr. 11.2) og leggur fyrir stjórn til samþykktar.

11.5. Húsnefnd er eftirlitsaðili með þeim verkþáttum sem framkvæmdir eru og húsnefnd hefur gert tillögur að. Húsnefnd skilar reglulega af sér skýrslu um framgang verka til stjórnar.

11.6. Húsnefnd hefur umsjón með aðgangsstýringum að húsnæði sveitarinnar og opnar á aðgengi fyrir nýja félaga með samþykki stjórnar og/eða formönnum flokka.

11.7. Húsnefnd hefur umsjón með þrifum í húsinu og umhirðu á lóð. Húsnefnd gerir samninga við verktaka um þrif og slátt og leggur fyrir stjórn til samþykktar.

11.8. Húsnefnd hefur umsjón með varaafli sveitarinnar, sér um viðhald þess og skráningu viðhaldsbókar.

12. Reglugerð um uppstillingarnefnd og framkvæmd kosninga

12.1. Fyrir lok janúar ár hvert skal stjórn sveitarinnar ákveða dagsetningu aðalfundar.

12.2. Þeir stjórnarmenn sem eru að ljúka sínu kjörtímabili skulu í síðasta lagi mánuði fyrir aðalfund vera búnir að tilkynna á stjórnarfundi hvort þeir hyggist bjóða sig fram að nýju, sami frestur gildir fyrir formann.

12.3. Uppstillingarnefnd tekur til starfa ekki síðar en mánuði fyrir aðalfund, samkvæmt tilkynningu frá ritara stjórnar. Þá hefur stjórn skipað formann nefndarinnar.

12.4. Uppstillingarnefnd fær þá þegar upplýsingar frá stjórn um það hverjir stjórnarmanna gefi kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Einnig skulu upplýsingar liggja fyrir um það hvort formaður gefi kost á sér til áframhaldandi starfa.

12.5. Framboðsfrestur rennur út viku fyrir boðaðan aðalfund.

12.6. Hafi ekki nægjanlegur fjöldi framboða borist við lok framboðsfrests skal fresturinn framlengjast þar til uppstillingarnefnd hefur náð að tryggja að framboð berist til allra embætta sem kosið er í. Náist ekki að tryggja nægjanlega fjölda framboða eru allir fullgildir félagar í kjöri.

12.7. Uppstillingarnefnd skal tilkynna að hún hafi hafið störf með greinilegum hætti á netsíðum Súlna og tilgreinir þau embætti sem kosið verður um og framboðsfrest.

12.8. Uppstillingarnefnd kynnir framboð og framkvæmd og sér síðan um framkvæmd kosninga á aðalfundi og lýsir niðurstöðum kosninga.

Framkvæmd kosninga:

12.9. Þegar framboð hafa verið kynnt skal kjörseðlum dreift til þeirra sem eru kjörgengir samkvæmt lögum Súlna. Talið skal hve mörgum kjörseðlum var dreift.

12.10. Rita skal á kjörseðilinn að hámarki þann fjölda nafna sem kosið er um, rita má færri nöfn en fleiri nöfn ógilda kjörseðilinn.

12.11. Að kosningu lokinni skal safna kjörseðlum saman. Kjörseðlarnir skulu taldir að nýju og skal sá fjöldi stemma við fjölda dreifðra kjörseðla.

12.12. Uppstillingarnefnd skal fá tvo aðila sér til aðstoðar við talningu atkvæða.

12.13. Að kosningu lokinni skal uppstillingarnefnd varðveita kjörseðla í einn mánuð.

13. Reglugerð um nýliða og inntöku nýrra félaga

13.1. Stjórn skipar nýliðaforingja og hafa þeir umsjón með og bera ábyrgð á nýliðastarfi I og II á hverjum tíma. Nýliðaforingjum ber að skila inn sakavottorði um starf með unglingum, sbr. lög SL.

13.2. Nýliðaforingjar skipuleggja nýliðadagskrá, útvega leiðbeinendur og aðstöðu og halda skrá utan um mætingu og lokin námskeið nýliða.

13.3. Nýliðar þurfa að ljúka ákveðum skyldunámskeiðum til að öðlast inngöngu í sveitina, auk þess er gerð krafa um 75% mætingarskyldu í nýliðadagskrá sem og aðra dagskrárliði sem þeir eru boðaðir í.

13.4. Nýliðaforingar skila inn mati til stjórnar um hvern þann sem sækir um inngöngu í Súlur. Nýliðar öðlast inngöngu í sveitina á fyrsta aðalfundi að loknum öllum skyldunámskeiðum eða næsta sveitarfundi, eftir að hafa starfað með sveitinni að lágmarki 12 mánuði. Umsókn um inngöngu skal vera skrifleg.

13.5. Í upphafi nýliðatímabils skulu fara fram námskeið og próf í rötun og fyrstuhjálp 1 og skal vísa þeim nýliðum frá sem ekki standast prófin. Þeim sem vísað er frá nýliðastarfi með þessum hætti skal bent á að þeir geta sótt um að hefja nýliðastarf aftur þegar auglýst verður að ári.

13.6. Nýliðar skulu ljúka öllum þeim námskeiðum sem skilgreind eru undir námsbrautinni „Björgunarmaður 1“ hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu hverju sinni auk Fyrstuhjálpar 2, Snjóflóð 2 og Fjallabjörgun 1. Uppröðun námskeiða til viðmiðunar er eftirfarandi:

Haust:

Björgunarmaður í aðgerðum

Ferðamennska og rötun (nái lágmarkseinkunn)

Fyrstahjálp 1 (nái lágmarkseinkunn)

Fjarskipti 1

Leitartækni

Öryggi við sjó og vötn

Vor:

Fjallamennska 1

Fyrstahjálp 2 (nái lágmarkseinkunn)

Snjóflóð 1 og 2.

Fjallabjörgun 1

14. Reglugerð um gestaaðild

14.1. Gestaaðild að Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri veitir takmarkaða og tímabundna aðild að sveitinni.

14.2. Umsókn um gestaaðild skal beina til stjórnar Súlna, á stjorn@sulur.is, ásamt rökstuðningi fyrir veitingu gestaaðildar.

14.3. Gestaaðild má veita félögum úr öðrum björgunarsveitum eða öðrum aðilum sem efla og bæta starf sveitarinnar. Stjórn metur hverja umsókn fyrir sig og hvaða námskeið umsækjanda er skylt að ljúka af nýliðadagskrá áður en hann öðlast inngöngu. Viðkomandi skal áður hafa tekið þátt í dagskrá sveitarinnar í sex mánuði hið minnsta.

14.4. Stjórn Súlna áskilur sér rétt til þess að afla upplýsinga um umsækjanda jafnt innan sem utan sveitarinnar.

14.5. Félagar annarra björgunarsveita geta sótt um inngöngu í sveitina eftir að hafa starfað á gestaaðild í að lágmarki sex mánuði og að því gefnu að þeir hafi lokið öllum skyldu námskeiðum sem fjallað er um í lið 13.6.

14.6. Við ákvörðun stjórnar, hvort mælt sé með inngöngu félaga á gestaaðild í sveitina, skal litið til þess hvort hann hafi verið virkur í starfi sveitarinnar frá upphafi gestaaðildar.

14.7. Inntaka félaga á gestaaðild í sveitina fer fram á aðalfundi Súlna eða sveitarfundum.

14.8. Gestaaðild veitir rétt til þess að sækja innri námskeið og almennt starf sveitarinnar. Jafnframt veitir hún áheyrnarétt á fundum en ekki atkvæðisrétt á aðalfundi, í nefndum eða flokkum.

14.9. Félögum á gestaaðild er ekki heimilt að vera í forsvari fyrir flokk eða hóp innan Súlna eða vera umsjónarmenn björgunartækja nema með sérstöku samþykki stjórnar.

 

15. Reglugerð um skápa fyrir einstaklingsbúnað

15.1. Varaformaður sveitarinnar hefur umsjón með skápum og úthlutun þeirra.

15.2. Umsókn félaga um að fá skáp til umráða skal skila til umsjónarmanns, sem tekur ákvörðun um úthlutun.

15.3. Umráðamaður skáps skal vera virkur, fullgildur og útkallshæfur félagi í Súlum.

15.4. Skápar og önnur geymslurými félaga í H-12 eru fyrir búnað til notkunar í starfi sveitarinnar Í skáp skal umráðamaður geyma fatnað, búnað og nesti til að geta mætt beint í hús í útkall, sama hvers eðlis það er og hvar á landinu. Búnaðurinn og nestið skal duga til a.m.k. sólarhrings.

15.5. Þeir félagar sem eru sérhæfðir á einhvern hátt, t.d. ökumenn vélsleða, undanfarar o.s.frv. skulu einnig geyma þann búnað sem tilheyrir því hlutverki, s.s. vélsleðahjálm og brynju, klifurbúnað o.s.frv.

15.6. Snyrtilega skal vera gengið frá fatnaði og öðrum búnaði í skápum. Alla jafna skulu skápar vera lokaðir. Bannað er að festa límmiða, handföng eða annað utan á skápana.

15.7. Ef umráðamaður skáps hefur ekki sinnt útköllum eða öðru starfi fyrir sveitina síðustu sex mánuði og útlit fyrir að svo verði áfram ber honum að tæma skápinn og afhenda umsjónarmanni lykilinn.

15.8. Ef umráðamaður skáps geymir, að mati umsjónarmanns, ekki nægan búnað í honum til að teljast útkallsfær (sbr. 15.4 og 15.5) skal honum gert að bæta úr því sem fyrst. Ef umráðamaður gerir ekki viðunandi ráðstafanir í kjölfarið ber honum að tæma skápinn og afhenda umsjónarmanni lykilinn.

15.9. Stjórn sveitarinnar tekur á ágreiningsmálum sem upp kunna að koma varðandi úthlutun skápa.

16. Reglugerð um notkun tækja í einkaeigu í dagskrá og aðgerðum sveitarinnar

16.1. Sé það í hag sveitarinnar að félagi nýti ökutæki í sinni eigu í þágu sveitarinnar á hann rétt á að fá greiddan útlagðan eldsneytiskostnað að undangengnu samþykki stjórnar. Reikning fyrir notkuninni skal skila til gjaldkera.

16.2. Stjórn skal gefa samþykki sitt áður en félagi í sveitinni nýtir sitt eigið ökutæki í útköll, námskeið eða aðra dagskrá á vegum sveitarinnar eða í tengslum við hana, hyggist viðkomandi fá eldsneytiskostnað greiddan vegna notkunarinnar.

16.3. Tryggingar í dagskrárviðburðum: Farartæki í einkaeigu er að öllu leyti á ábyrgð eiganda í dagskrárviðburðum Súlna eða í viðburðum í tengslum við sveitina.

16.4. Tryggingar í útköllum: Sé það, í neyðartilvikum, í hag útkalls að félagi í Súlum nýti einkatæki sitt í aðgerðinni að mati aðgerðarstjórnenda í samráði við stjórn, greiða Súlur að hámarki bætur vegna tjóns sem nemur sjálfsábyrgð tækisins.

16.5. Í undantekningartilfellum getur stjórn sveitarinnar gefið tímabundið leyfi fyrir því að tæki eða búnaður félaga sveitarinnar séu geymd í eða við Hjalteyrargötu 12, annars staðar en í búnaðarskápum, enda sé það í hag sveitarinnar vegna útkalla eða annars starfs.

Síðast breitt 31.10.23. Samþykkt á stjórnarfundi