Lög Súlur, björgunarsveitin á Akureyri

Lög Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri

1. grein

Félagið heitir Súlur, björgunarsveitin á Akureyri. Lögheimili þess og varnarþing er á Akureyri. Félagið tekur við starfsemi Hjálparsveitar skáta Akureyri, Flugbjörgunarsveitarinnar á Akureyri og sjóbjörgunarsveitarinnar Súlna S.V.F.Í. Akureyri, skv. sérstökum samningi milli framangreindra aðila þar um.

2. grein

Hlutverk félagsins er að:

A. Starfrækja björgunarsveit og vinna að björgunar- og hjálparstörfum.

B. Gefa félagsmönnum kost á að afla sér aukinnar sérþekkingar og auka færni sína við björgunar- og hjálparstörf, með því að tryggja þeim markvissa þjálfun.

C. Að stuðla að fræðslu og kynningu á sviði öryggis- og björgunarmála og stuðla að slysavörnum.

3. grein

Einkenni félagsins er nafnið og fjallið Súlur. Stjórn setur nánari reglur um notkun og útfærslu.

4. grein

Félagið er aðili að Slysavarnarfélaginu Landsbjörg.

5. grein

Félagar geta þeir orðið sem hafa hafið þátttöku í nýliðastarfi. Umsókn um inntöku í félagið skal berast stjórn skriflega. Ef félagsmaður óskar þess að hætta í félaginu, skal hann gera það skriflega.

6. grein

Félagsmenn bera hvorki persónulega ábyrgð á skuldbindingum félagsins né eiga þeir tilkall til hlutdeildar í eignum eða afkomu þess.

7. grein

Stjórn getur vísað félagsmanni úr félaginu ef hann verður uppvís um eitthvað af eftirfarandi:

a) Með orðum sínum eða athöfnum kastað rýrð á orðspor félagsins.

b) Verið undir áhrifum áfengis eða lyfja í starfi fyrir félagið.

c) Valdið spjöllum á eignum félagsins.

d) Unnið gegn hagsmunum félagsins.

e) Gerst brotlegur við lög félagsins eða reglur.

f) Gerst brotlegur við siðareglur Slysavarnafélagsins Landsbjargar

Áður en félagsmanni verður vikið úr félaginu skal að jafnaði gefa viðkomandi færi á að bæta ráð sitt eða bæta fyrir það sem misgjört hefur verið ef þess er kostur. Ef brot telst vera af gáleysi má beita vægari viðurlögum, svo sem að veita viðkomandi formlega áminningu, víkja honum tímabundið af útkallskrá eða vísa tímabundið úr starfi.

Þegar stjórn félagsins hyggst láta félagsmann sæta viðurlögum af einhverju tagi, svo sem að honum sé veitt áminning, hann tekinn af útkallsskrá um lengri eða skemmri tíma eða vísað úr félaginu skal viðkomandi gefið færi á að skýra mál sitt og andmæla ákvörðun stjórnar.

Félagsmanni sem stjórn hefur gert að sæta viðurlögum af einhverju tagi skal gefast kostur á að skjóta máli sínu til úrskurðar félagsfunda.

8. grein

Stjórn félagsins er heimilt að innheimta félagsgjöld af félagsmönnum. Framkvæmd gjaldtöku skal ákveðin af aðalfundi.

9. grein

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins, en milli aðalfunda sérstök kjörin stjórn skv.
10. grein, sé ekki annars getið í lögum þessum. Kjörgengi og atkvæðisrétt á aðalfundi hafa þeir félagsmenn sem starfað hafa með félaginu í 12 mánuði hið minnsta og fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til nýliða. Aðrir félagar hafa rétt til setu og framsögu á fundinum. Skrá yfir félaga skal liggja frammi á fundinum. Afl atkvæða ræður úrslitum mála, nema annars sé getið í lögum þessum. Aðalfund skal halda fyrir 1. apríl ár hvert og skal til hans boðað skriflega með minnst sjö daga fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef 20 fullgildir félagsmenn hið fæsta sækja fundinn. Ef aðalfundur telst ekki lögmætur, skal samstundis boða til nýs fundar innan fjögurra vikna, og telst hann þá lögmætur ef réttilega er til hans boðað skv. framanskráðu. Dagskrá aðalfundar skal vera þessi.
1. Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara.
2. Staðfesting á kjörgengi fundarmanna.
3. Skýrsla stjórnar.
4. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar.
5. Lagabreytingar ef þeirra er getið í fundarboði.
6. Tillögur sem borist hafa kynntar og bornar undir atkvæði.
7. Stjórnarkjör.
8. Kosning tveggja skoðunarmanna. Umboð beggja er til eins árs.
9. Kosning tveggja manna í uppstillingarnefnd. Umboð beggja er til einsárs.
10. Önnur mál.
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skulu liggja frammi: Lög félagsins, fundargerð síðasta aðalfundar, reglugerðir, félagaskrá, tillögur sem leggja á fyrir fundinn og endurskoðaðir reikningar. Ef ekki tekst að ljúka afgreiðslu mála á aðalfundi félagsins, skal boða til framhaldsaðalfundar. Dagskrá fundarins verði eingöngu um þau mál.

10. grein

Stjórn félagsins skal skipuð sjö aðalfulltrúum, formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og þremur meðstjórnendum. Formaður skal kjörinn sérstaklega til eins árs, Gjaldkeri til tveggja ára. Aðrir stjórnarmenn skulu kjörnir til tveggja ára. Ekki mega fleiri en þrír stjórnarmenn auk formanns ganga úr stjórn milli ára, nema með sérstöku leyfi og samþykki aðalfundar. Stjórn félagsins skiptir með sér verkum. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef fimm stjórnarmenn sækja fund hið fæsta. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum.

11. grein

Í félaginu skal vera starfandi uppstillingarnefnd sem hefur það hlutverk að tryggja að framboð berist til allra embætta sem kosið er í á aðalfundi. Nefndina skipa þrír aðilar tveir kjörnir af aðalfundi og einn skipaður af stjórn og er hann jafnframt formaður hennar.

12. grein

Stjórn félagsins er heimilt að skipa nefndir til að vinna að ákveðnum verkefnum. Stjórnin setur slíkum nefndum starfsreglugerð eða erindisbréf.

13. grein

Stjórn félagsins skal boða til félagsfunda eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári. Til félagsfunda skal boða á tryggilegan hátt með minnst einnar viku fyrirvara. Samþykktir gerðar á félagsfundi þurfa samþykki meirihluta atkvæðisbærra fundarmanna (skv. 9. grein). Stjórn er skylt að boða til félagsfundar ef 15 félagsmenn óska þess skriflega.

14. grein

Stjórn félagsins skal annast skuldbindingar í nafni þess, og hafa yfirumsjón með fjármálum og eignum. Stjórn félagsins hefur einungis umboð til einstakra fjárfestinga í nafni þess að því sem nemur 1/4 veðhæfi fasteigna, nema til komi sérstök heimild aðalfundar. Það sama gildir um sölur eigna.

15. grein

Stjórn félagsins skal leitast við að ávaxta sjóði þess á þann hagkvæmasta og tryggasta hátt sem býsðst hverju sinni, hjá banka eða sparisjóði. Meiginstefna skal vera öryggi freka en há ávöxtun.

16. grein

Ef starfsemi félagsins verður lögð niður, skulu eignir þess vera í vörslu Akureyrarbæjar fyrstu átján mánuðina. Ef ekki hefur verið reynt að endurvekja félagið að þeim tíma liðnum skulu síðast kjörnir skoðunarmenn og einn fulltrúi tilnefndur af bæjarstjórninni á Akureyri ráðstafa eignum sveitarinnar til björgunarmála og slysavarna.

17. grein

Lög þessi eru samþykkt á aðalfundi 10. mars 2022 og öðlast þá þegar gildi og með þeim eru úr gildi fallin eldri lög félagsins. Lögum félagsins verður ekki breytt nema á aðalfundi félagsins og þarf 2/3 hluta atkvæða til lagabreytinga. Breytingatillögur við lög þessi þurfa að berast stjórn félagsins í síðasta lagi 1. febrúar.

_____________________________

Breytingar:

Breyting aðalfundur 12. mars 2001  8.grein

Breyting aðalfundur 8. mars 2007  8.grein

Breyting aðalfundur 12. mars 2009 8. 9. 10. 11. grein

Breyting aðalfundur 14. mars 2017  9.grein

Breyting Aðalfundar 18 mars 2021  10.grein

Breyting aðalfundur 10. mars 2022  7.grein

Breyting aðalfundur 11. mars 2024 9. grein