Um okkur

Súlur, björgunarsveitin á Akureyri var stofnuð árið 1999 við sameiningu Hjálparsveitar skáta Akureyri, Flugbjörgunarsveitarinnar á Akureyri og Sjóbjörgunarsveitar S.V.F.Í. á Akureyri.


Súlur, björgunarsveitin á Akureyri er aðili að Slysavarnarfélaginu Landsbjörg og er markmið sveitarinnar að vinna að björgunar- og hjálparstörfum. Einnig að stuðla að auknum slysavörnum sem og aukinni fræðslu og kynningu á sviði öryggis- og björgunarmála. Sveitin gegnir mikilvægu hlutverki í skipulagi Almannavarna.


Í Súlum eru skráðir hátt í 200 fullgildir félagar en samkvæmt skráningarkerfinu D4H eru 125 manns á útkallsskrá. Sveitin er ein öflugasta og best útbúna björgunarsveit landsins og er tækjabúnaður sveitarinnar til fyrirmyndar. Í eigu sveitarinnar eru þrír fullbreyttir jeppar, tveir bílar til fólksflutninga, sleða-/bátabíll, einn öflugasti snjóbíll landsins, vörubíll, sex vélsleðar, tveir buggy-bílar, bátur, fullkominn fjallabjörgunarbúnaður, góður skyndihjálparbúnaður og mikið af öðrum smærri búnaði.


Sveitin er til húsa í um 1150 m 2 eigin húsnæði að Hjalteyrargötu 12 á Akureyri.


Samvinna við aðra viðbragðsaðila á svæðinu, svo sem lögreglu, slökkvilið og aðrar björgunarsveitir hefur verið með miklum ágætum undanfarin ár.


Sveitin er aðili að svæðisstjórn björgunarsveita á svæði 11 og fer þar með formennsku. Aðal stjórnstöð svæðisstjórnar er í húsnæði sveitarinnar sem og aðgerðarmiðstöð almannavarna.