Unglingadeild

Unglingadeildin Lambi er ný viðbót í starf Súlna haustið 2025. Fyrsta árið verða teknir inn krakkar sem verða 14 ára á árinu og hefst þannig spennandi nýtt ævintýri þar sem ungir krakkar fá að kynnast starfi björgunarsveita á öruggan og skemmtilegan hátt.

Í unglingadeild gefst tækifæri til að læra meðal annars  rötun, kortalestur, ferðamennsku, fjallamennsku, sig, leitartækni og fyrstu hjálp. Krakkar í unglingadeild fá jafnframt að taka þátt í æfingum og verkefnum með björgunarsveitinni og þannig kynnast þau starfinu að innan í skemmtilegu og uppbyggilegu umhverfi.
Mikið er lagt upp úr samstarfi við aðrar unglingadeildir, haldin eru landshlutamót og landsmót og þannig gefst tækifæri til að eignast vini með sama áhugamál um allt land.

Unglingadeildir Landsbjargar starfa samkvæmt skýrum reglum og eru ætlaðar unglingum á aldrinum 13–18 ára. Í deildunum fá þátttakendur tækifæri til að læra fjölbreytta færni sem nýtist bæði í daglegu lífi og í aðstæðum þar sem hjálp er nauðsynleg. 

Starfið byggir ekki aðeins á ævintýrum og útivist heldur líka á því að skapa traustan vinahóp og efla samvinnu. Krakkarnir læra að treysta hvert öðru, vinna saman að lausnum og byggja upp sjálfstraust. Deildirnar kjósa jafnframt fulltrúa í ungmennaráð Landsbjargar þar sem unglingar geta haft áhrif á starfsemi og komið sínum hugmyndum á framfæri. Þannig fær ungt fólk rödd í félaginu og tækifæri til að læra lýðræðislega þátttöku.

Öryggi og velferð ungmenna er í fyrirrúmi. Umsjónarmenn deildarinnar eru fullorðnir einstaklingar með reynslu og ábyrgð, bundnir trúnaði og þurfa að framvísa sakavottorði. Reglugerð 1/2020 hjá Landsbjörg tryggir að allt starf með börnum og ungmennum fari fram á ábyrgan og faglegan hátt. Þar að auki byggir starfið á siðareglum Landsbjargar sem leggja áherslu á virðingu, fagmennsku og góða samskiptahætti.

Lambi starfar einnig í samræmi við leiðarljós og stuðning Æskulýðsvettvangsins, sem leggur áherslu á öryggi, jákvætt uppeldi og fræðslu í æskulýðsstarfi. Með aðstoð Æskulýðsvettvangsins fá leiðbeinendur aðgang að verkfærum, námskeiðum og stefnum sem tryggja öruggt og uppbyggilegt umhverfi fyrir börn og unglinga.

Með því að taka þátt í starfi unglingadeildarinnar Lamba fá unglingar einstakt tækifæri til að læra gagnlegar og spennandi færni, eignast nýja vini og taka þátt í starfi sem byggir á ábyrgð, hjálpsemi og samstöðu.