
Reglur Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri um rafræna vöktun öryggismyndavéla.
Stjórn Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri, framvegis Súlur hefur sett sér eftirfarandi reglur um rafræna vöktun öryggismyndavéla. Reglurnar byggja á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 og reglum nr. 50/2023 um rafræna vöktun.
1.gr. Umfang vöktunar
Súlur hafa sett upp stafrænar myndavélar í Hjalteyrargötu 12 þar sem rafræn vöktun er talin nauðsynleg á grundvelli öryggis og/eða eignavörslu, sbr. 2. gr. reglnanna.
Þau svæði þar sem vöktun fer fram eru merkt með skýrum hætti. Vöktunin og reglur þessar eru kynntar þeim sem vöktun hefur áhrif á, hvort sem um ræðir félagsmenn og/eða almenning þar sem öryggismyndavél er á almannarými.
2.gr. Tilgangur
Tilgangur með rafrænni vöktun er í þágu öryggis- og eignavörslu, til varnar því að eignir í eigu Súlna séu skemmdar og að farið sé um byggingar eða aðrar eigur í leyfisleysi og til að stuðla að öryggi á þessum svæðum.
Reglunum er ætlað að tryggja meðalhóf, virða einkalífsrétt þeirra sem sæta vöktun og ganga ekki lengra en nauðsyn ber til.
3.gr. Meginreglur sem gilda um rafræna vöktun
Persónuupplýsingar sem verða til við rafræna vöktun skal fara með í samræmi við 8. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 90/2018.
Skulu upplýsingar unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og öll meðferð þeirra samrýmast vönduðum vinnsluháttum persónuupplýsinga.
Upplýsingunum er safnað í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi, sbr. 2. gr. reglnanna og eru ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi.
Upplýsingar sem safnað er skulu vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar.
4.gr. Heimild fyrir rafrænni vöktun
Vöktun fer fram til að gæta hagsmuna Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri með vísan til öryggis- og eignavörslu, sbr. 6. tl. 9. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
5.gr. Fræðsla um rafræna vöktun
Þar sem rafræn vöktun fer fram skal setja upp áberandi skilti, þannig að einstaklingum sem eiga að sæta vöktuninni sé ljóst, áður en þeir koma inn á vaktað svæði eða vöktun hefst, að vöktunin sé viðhöfð og að Súlur sé ábyrgðaraðili hennar og hver sé varðveislutími myndefnis.
Á skiltum skal vera QR-kóði sem leiðir inn á fræðslu um rafræna vöktun með öryggismyndavélum, þar sem fram kemur hver ábyrgðaraðili sé, hver er tilgangur vöktunar, heimild fyrir vinnslu, tegundir persónuupplýsinga sem unnið er með, hverjir eru viðtakendur, hvort heimilt er að miðla til þriðja aðila, varðveislutími myndefnis, réttindi einstaklinga og réttur til að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd.
6.gr. Varðveisla persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun
Upplýsingum sem verða til við rafræna vöktun skal eytt um leið og ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita þær.
Upplýsingar sem verða til við rafræna vöktun eru aldrei varðveittar lengur en í 30 daga nema lög heimili, sbr. og 2.-5. tl. 11. gr. reglna um rafræna vöktun nr. 50/2023 eða dómsúrskurður liggi fyrir.
Stjórn Súlna ber að tryggja að gagnatakmarkanir geri ráð fyrir yfirskrift á stafrænum upptökum áður en 30 daga varðveislu er náð.
7.gr. Skoðun persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun
Myndefni úr stafrænum myndavélum er heimilt að skoða ef upp koma atvik er varða eignavörslu eða öryggi einstaklinga, s.s. þjófnaður, skemmdarverk eða slys. Einungis þeir einstaklingar sem stjórn hefur gefið leyfi til að geta skoðað upptökurnar og skulu þeir hafa undirritað trúnaðar- og þagnarskylduyfirlýsingu vegna starfa sinna. Skrásetja skal skoðun á uppteknu efni og skulu ávallt tveir vera saman við skoðun efnis úr rafrænum öryggismyndavélum.
Berist krafa frá aðila um skoðun gagna sem hafa orðið til við rafræna vöktun um hann, skulu gögn skoðuð og gengið úr skugga um að upptaka sé af aðila. Ef svo er þá er honum heimilað að skoða efnið eigi síðar en innan eins mánaðar frá móttöku erindis að því gefnu að það skerði ekki réttindi og frelsi annarra.
Komi upp ágreiningur, m.a. vegna hagsmuna þriðja aðila, má vísa honum til úrlausnar Persónuverndar. Getur Persónuvernd þá lagt fyrir Súlur að varðveita gögn þar til niðurstaða hennar liggur fyrir.
Ef skoðun á myndefni leiðir í ljós að grunur sé um eignaspjöll, slys, slagsmál eða mögulega refsiverða háttsemi þar sem börn koma við sögu skal forsjáraðilum þeirra barna gert viðvart og þeim gerð grein fyrir möguleika á því að fá að vera viðstaddir skoðun á efni.
8.gr. Afhending persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun
Eingöngu er heimilt að miðla persónuupplýsingum sem verða til við rafræna vöktun í eftirfarandi tilvikum:
Hinir skráðu samþykkja það og samþykkið uppfyllir kröfur 10. gr. laga nr. 90/2018,sbr. 7.gr. reglugerðar (ESB) 2016/679;
Upplýsingarnar varða slys eða meintan refsiverðan verknað og eru afhentar lögreglu.
Mælt er fyrir um miðlun upplýsinganna í lögum.
Upplýsingarnar eru nauðsynlegar einum eða fleiri hinna skráðu til að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja, t.d. þegar tryggingafélag tekur afstöðu til bótaskyldu.
Ákvörðun Persónuverndar um að heimila miðlun upplýsinganna liggur fyrir.
9.gr. Notkun ökurita og/eða staðsetningarbúnaðar
Stjórn Súlna heimilar notkun ferilvöktunarbúnaðar í bifreiðar og tæki Súlna með Tetra kerfinu í því skyni að fylgjast með ferðum eða staðsetningu tækja.
10.gr. Sjónvarpsvöktun
Stjórn heimilar einungis sjónvarpsvöktun á sölum Hjalteyrargötu 12 í flugeldavertíð allir salir uppi og suðursalur í startinu. Einnig bækistöð/svæðisstjórn í alla sali í útköllum.
11.gr. Andmæli við framkvæmd vöktunar
Komi fram athugasemdir eða andmæli við framkvæmd vöktunar og/eða ábendingar um að hún
uppfylli ekki þær kröfur sem settar eru í reglum þessum eða lögum skal hafa samband við
stjórn með því að senda tölvupóst á netfangið stjorn@sulur.is.
Samþykkt á stjórnarfundi 21.01.2026